Daði Kristjánsson er Akureyringur að uppruna og fór í menntaskóla á Akureyri, en eftir það fór hann í iðnaðarverkfræði við Háskóla Íslands. Þaðan útskrifaðist hann svo árið 2007 og hóf í kjölfarið störf í gjaldeyris- og afleiðumiðlun hjá Icebank.

„Þetta voru gríðarlega skemmtilegir tímar og ég gæti eiginlega ekki hafa verið heppnari að byrja á stað eins og Icebank sem var svona lítill fjárfestingabanki í grunninn, með sparisjóðatengingu. Þar kom ég að gríðarlega fjölþættum verkefnum og fékk mikla ábyrgð eiginlega bara strax. Það er náttúrulega alveg frábært fyrir ungan og metnaðarfullan mann að komast snemma inn í málin.“

Icebank fór svo í þrot í kjölfar hrunsins og Daði fékk starf hjá H.F. Verðbréfum árið 2010 í markaðsviðskiptum. Þar tók hann þátt í að byggja upp skuldabréfamarkaðinn. „Fókusinn var rosalega mikið á skuldabréf fyrstu árin eftir hrun, hlutabréfamarkaðurinn var mjög dapur. Það þurfti að byggja skuldabréfamarkaðinn upp frá grunni. Skilmálarnir urðu allt öðruvísi en þeir voru áður, þeir voru nánast engir hérna fyrir hrun.“

Í árslok 2014 tók Daði síðan við stöðu framkvæmdastjóra. „Maður þurfti meira að hugsa um stjórnun, samskipti við Fjármálaeftirlitið, uppgjör og fleira. Ég þurfti líka að vinna með fyrirtækjaráðgjöfinni, en ég hafði fyrst og fremst verið í markaðsviðskiptum.“

Ári seinna voru H.F. verðbréf keypt af Arctica Finance. „Það var afskaplega farsælt skref fyrir alla aðila að mínu mati. Þar byggðum við upp flott teymi sem gekk vel, en svo bara koma stundum tímar þar sem menn vilja breyta til, og við Adrian sem höfum starfað saman frá því í Icebank ákváðum að færa okkur yfir til Fossa.“

Daði segir ótrúlega mikið hafa gerst á skömmum tíma eftir að hann byrjaði hjá Fossum. „Á þeim tæpu tveimur mánuðum sem ég hef verið hérna höfum við lokað stórum skuldabréfaútgáfum og verið mjög atkvæðamiklir á hlutaog skuldabréfamarkaði í hefðbundnum viðskiptum, þannig að það hefur bara gengið afskaplega vel. Ég held að maður sé á hárréttum stað eins og staðan er núna.“

Daði býr í Garðabæ og hefur búið þar í tíu ár. Hann er giftur Lindu Björk Lárusdóttur og á með henni tvo stráka. „Ég er fótboltaáhugamaður og hef áhuga á Þór og Stjörnunni og síðast en ekki síst Tottenham í enska boltanum. Svo er ég mikill golfáhugamaður og er einmitt nýkominn úr golfferð til Barcelona þar sem ég var á glæsilegum golfvelli, við vorum þarna átta félagar.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .