Stjórn Landverndar vill hrósa hreppsnefnd Reykhólahrepps fyrir að sýnda umhyggju fyrir umhverfi sínu með því að taka til skoðunar nýja leið vegna veglagningar í sveitafélaginu að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Fram kom í fréttum fyrr í vikunni að Reykhólahreppur samþykkti með 3 atkvæðum gegn 2 í hreppstjórninni að Vestfjarðarvegur færi svokallað Þ-H leið, sem liggur eftir endilöngum landnámsskóginum við norðanverðan Þorskafjörð sem fengið hefur nafnið Teigsskógur. Sögðust þeir sem kusu með leiðinni sumir hverjir hafa orðið fyrir þrýstingi og jafnvel „ofbeldi, ofsa og yfirgangi“ .

Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá lét sveitarfélagið skoða vel svokallaða R leið sem hefði falið í sér stöplabrú yfir mynni Þorskafjarðar , en talsmenn hennar segja hana fela í sér mun minna rask og þann kost að vegurinn myndi liggja að mestu eftir núverandi vegi í gegnum Reykhóla.

Þá átelur Landvernd Vegagerðina fyrir að sýna ekki sömu framsýnu viðhorf og hreppsnefndin gagnvart nýjum hugmyndum um endurbætur á Vestfjarðarvegi sem falla mun betur að verndun hinnar verðmætu og einstöku náttúru Breiðafjarðar sem nýtur vendar í lögum.

Jafnframt átelur Landvernd  Vegagerðina fyrir yfirgangssemi gagnvart litlu sveitafélagi sem á mikið undir bættum samgöngum og góðu samstarfi við Vegagerðina.

Landvernd vill beina því til Vegagerðarinnar eins og margendurtekið hefur verið í umsögnum samtakanna um hina svokölluðu Þ-H leið að þverun fjarðanna á leiðinni er óásættanleg vegna hættu á neikvæðum áhrifum á grunnsævi, eðli sjávarstrauma og  lífríki fjarðanna.

Þá hvetur Landvernd  Vegagerðina til að kynna sér vel leið R og nýjungar í brúarsmíð sem lýst er í skýrslu norska ráðgjafafyrirtækisins Multikonsult sem unnin var fyrir Reykhólahrepp.

Hér má sjá fleiri fréttir um vegalagningu Vestfjarðarvegs um Reykhólahrepp: