Bandaríski prófessorinn Richard Thaler fékk nóbelsverðlaunin í hagfræði fyrir rannsóknir sínar á atferlishagfræði. Í rannsóknum sínum reynir Richard Thaler, sem starfar við Háskólann í Chicago, að skilja hvernig fólk tekur ákvarðanir, sérstaklega þær sem virðast órökréttar og óskynsamlegar.

Thaler er einn fremsti sérfræðingurinn í tiltölulega nýrri grein hagfræðinnar sem blandar saman sálfræði og hagfræði, og hefur hann á ferli sínum rannsakað af hverju fólk tekur slæmar ákvarðanir. Allt frá því hvers vegna fólk sparar svo lítið fyrir efri árin í það hvers vegna lið í bandaríska fótboltanum velja oft illa nýja leikmenn.

„Við Bandaríkjamenn borðum of mikið, tökum á okkur of miklar skuldir, spörum of lítið og frestum öllu sem er eilítið óþægilegt eins lengi og við getum,“ rifjar Washington Post upp eftir honum. Margar af rannsóknum hans snúast um að skilja af hverju fólk velur fullnægju nautna sinna strax, jafnvel þó biðin myndi gefa þeim meira fé og líf þegar fram líða stundir.

Kom fyrir í bíómynd um hrunið

Thaler fékk doktorsgráðu sína í hagfræði við Rochester háskóla árið 1974 og kom hann stuttlega fyrir í myndinni The Big Short sem fjallaði um undirmálslánin sem ollu efnahagshruninu á árunum 2007 til 2009. Nóbelsverðlaunanefndin segir hann vera brautryðjanda í að sameina hagfræði og sálfræði. „Hann hefur gert hagfræðina mannlegri.“

Nóbelsverðlaunin í hagfræði eru ekki meðal upprunalegra verðlauna sem Alfred Nobel kom á fót á 19. öld, heldur var þeim bætt við árið 1968 og verðlaunin afhent í fyrsta skipti árið eftir að því fram kemur í frétt Washington Post .