*

mánudagur, 25. mars 2019
Innlent 3. ágúst 2013 17:10

Athafnamaður fallinn frá

Minningarorð um Jóhannes Jónsson verslunarmann.

Ritstjórn
Fjölmiðlafólk átti jafnan auðvelt með að ná í Jóhannes Jónsson. Þótt hann svaraði ekki alltaf öllum spurningum tók hann símann, var kurteis og sagði sína skoðun ef því var að skipta.
Haraldur Guðjónsson

„Það lá alltaf í loftinu að koma til baka eftir að mér var bolað út,“ sagði Jóhannes Jónsson í viðtali við Viðskiptablaðið 10. maí í fyrrasumar, hinu síðasta af mörgum. Honum var mikið niðri fyrir, enda var hann að undirbúa opnun á nýrri Iceland verslun. Orðin og sá þungi, sem þeim fylgdi, lýsa Jóhannesi og þeirri mynd sem fólk hafði af honum ágætlega. Hann var baráttujaxl, sem lét engan eiga neitt hjá sér og lét verkin tala. Nema hvað þjóðin þekkti engan Jóhannes Jónsson, hún þekkti Jóa. Jóa í Bónus.

Það hefur margoft verið fjallað um það hvernig Jóhannes braut ákveðið blað í verslunarsögu Íslands með opnun á lágverðsverslun. Hann fór ótroðnar slóðir og var af þeirri kynslóð, sem skildi að velgengni kæmi ekki af sjálfu sér. Það þyrfti að hafa fyrir hlutunum og árangur næðist með því að veita þjónustu sem eftirspurn væri eftir, en þegar þar var komið við sögu höfðu stórmarkaðirnir skilið eftir stóra glufu á markaðnum, sem enginn hirti um. Hann stofnaði Bónus á þeim tímapunkti þegar íslenskt efnahagsumhverfi var í þann mund að losna úr viðjum forréttinda og hafta, sem höfðu of lengi þrifist í skjóli ríkisvaldsins, og duglegir athafnamenn gátu náð miklum árangri. Fyrir hamhleypu eins og Jóhannes fólu slíkir tímar í sér einstök tækifæri og þau nýtti hann sér. Stundum kannski af meira kappi en forsjá og hann sást ekki alltaf fyrir, en eftir sem áður var það kaupmaðurinn Jói, sem þjóðin skildi og hafði mætur á.

Gildi athafnamanna fyrir samfélög er vanmetið. Þetta er fólkið sem fær hugmyndir og tekur áhættu með því að framkvæma þær, leggur til bæði vinnu og eigið fé í upphafi, til að byggja upp atvinnurekstur og fjölga tækifærum í atvinnulífinu. Jóhannes Jónsson var slíkur maður. Og hann gafst aldrei upp. „Í öllum viðskiptum, þegar menn eru að reyna að gera eitthvað í stað þess að gera ekki neitt, getur farið svona,“ sagði Jóhannes í samtali við DV, þegar hann var spurður um gjaldþrot Baugs. Þeim sem reyna aldrei neitt mistekst aldrei. Þeir sem framkvæma uppskera þótt stundum fari illa.

Þegar illa gekk var oft hart sótt að Jóhannesi í fjölmiðlum. Það var merkilegt að hann svaraði alltaf símanum, var kurteis og svaraði því sem hann gat og vildi svara. Oft notaði hann tækifærið til að lýsa skoðun sinni á fréttaflutningi fjölmiðla, eins og allir eiga rétt á, en það var gert af sanngirni. Jóhanneskunni líka að nýta sér fjölmiðla til að vekja athygli á því, sem hann var að gera þá stundina. Það gerir enginn í tuttugu ár án þess að eiga fyrir því innistæðu, sem oftast vinnst með heiðarlegum samskiptum og ákveðnum eldmóði sem hrífur fólk.

Viðskiptablaðið vottar fjölskyldu Jóhannesar Jónssonar samúð sína.

Ferill Jóhannesar:

Jóhannes Jónsson fæddist 31. ágúst 1940 og hóf ungur störf hjá föður sínum í matardeild Sláturfélags Suðurlands. Síðar tók hann við sem verslunarstjóri hjá Sláturfélaginu og gegndi því starfi í á annan áratug. Ævistarfið hans var kaupmennska en hann lærði prentiðn. Árið 1989 stofnaði Jóhannes lágvöruverðsverslunina Bónus ásamt fjölskyldu sinni, sem hann var lengst af kenndur við. Árið 1992 keypti Hagkaup helmingshlut í Bónus og síðar voru þær sameinaðar undir Högum árið 1998. Í ágúst 2010 opnaði Jóhannes Iceland verslun í Engihjalla í Kópavogi í samstarfi við Malcolm Walker. Eftirlifandi eiginkona Jóhannesar er Guðrún Þórsdóttir. Hann lætur einnig eftir sig tvö börn, tvö stjúpbörn og fimm barnabörn.