Konur eru um fjórðungur þeirra sem fjallað er um í heimsfréttum, en karlar eru um þrisvar sinnum fleiri. Þetta eru niðurstöður alþjóðlegrar rannsóknar Global Media Monitoring Project (GMMP) sem kynnt var í dag.

Rúmlega 20% þeirra sem rætt var við eða fjallað um í fréttaflutningi á Íslandi voru konur, meðan karlar voru 80%. Hlutfallið er nokkuð lægra en á öðrum Norðurlöndum. Í Danmörku voru konur 23%, 24% í Noregi, 27% í Finnlandi og 31% í Svíþjóð.

Þriðjungur frétta skrifaður af konum

Tæpur þriðjungur íslenskra frétta er fluttur eða skrifaður af konum. Fréttakonur flytja því samkvæmt hlutfallslega færri fréttir hér á landi, sem kemur svo niður á hlutfalli kvenna í fréttum almennt.

Þetta er vegna þess að konur voru talsvert líklegri til að fjalla um aðrar konur - en í 33% frétta og umfjallana eftir konur voru viðmælandi eða manneskjan sem fjallað var um einnig kvenkyns. Hlutfallið er aðeins 8% í fréttum sem skrifaðar eru af karlmönnum.

Ekki frekar í „mjúkum" fréttum

Rannsóknir GMMP hafa bent til þess að konur séu fremur viðmælendur eða umfjöllunarefni í „mjúkum” fréttum - fréttum um dægurmál, heilbrigðis- eða félagsmál - fremur en í „hörðum” fréttum - sem eru fréttir um pólitík, efnahagsmál og afbrotamál.

Ekki virðist þó vera svo að konur í íslenskum fréttum séu fremur umfjöllunarefni í mjúkum fréttum en hörðum. Konur voru til dæmis viðmælendur í ríflega 30% frétta um efnahagsmál og 20% viðmælenda í fréttum um pólitík - sem er í meiri mæli en ætla mætti út frá fyrrnefndum tölum um hlutföll kvenna í fréttum almennt.