Formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verslunarmanna, Guðrún Hafsteinsdóttir, sem jafnframt er formaður Samtaka iðnaðarins og forstjóri Kjörís, segir að henni lítist vel á að allsherjar úttekt verði gerð á lífeyriskerfinu.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hefur viðrað hugmyndir um að slík úttekt verði gerð til að hægt sé að greina þær hættur sem kunni að leynast í kerfinu til framtíðar að því er segir í Morgunblaðinu í dag.

Gólf á erlendar fjárfestingar

„Ég held að ég sem stjórnarformaður myndi taka vel í þær hugmyndir forsætisráðherra, að sett yrði gólf á erlendar fjárfestingar lífeyrissjóða," segir Guðrún.

„Ég hef talað fyrir því sem stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna og eins sem formaður Samtaka iðnaðarins. Það er orðið mjög knýjandi að taka mjög afgerandi skref í afléttingu hafta og hluti af þeirri vinnu gæti verið að setja gólf á fjárfestingar lífeyrissjóðanna erlendis."

Guðrún segir jafnramt að það þurfi ekki að koma neinum á óvart hve lífeyrissjóðirnir séu orðnir fyrirferðamiklir í íslensku atvinnulífi. „...því þeir hafa verið með fjárfestingar sínar inn í lokuðu hagkerfi," segir Guðrún við ummælum forsætisráðherra þessa efnis.

Fjármagnið lokað inni

„Það hlýtur hver maður að sjá að fjárfestingarþörf sjóðanna er mjög mikil og við höfum ekki getað farið út með fjármagnið. Þetta hafa verið smáskammtalækningar, sem hafa ekki dugað til. Því er ekki við sjóðina að sakast í þeim efnum.“

Guðrún vill þó beina því til ríkisstjórnarinnar að slík úttekt verði gerð í góðri samvinnu við Landssamtök lífeyrissjóða.

Horfa ekki til þess að vera með stjórnarmenn

Harpa Ólafsdóttir, formaður stjórnar lífeyrissjóðsins Gildi, og forstöðumaður kjaramálasviðs Eflingar, segir fjárfestingarstefnu sjóðsins miða að því að fá sem mesta dreifingu í fjárfestingum til að áhættan sé sem minnst.

„Við hjá Gildi erum að dreifa okkar áhættu og okkar sjóður á ekki það mikið hlutfallslega í hverju félagið að við séum þar ráðandi," segir Harpa um þann möguleika sem forsætisráðherra nefndi að atkvæðisréttur lífeyrissjóðanna í félögum í þeirra eigu yrði takmarkaður.

„Vissulega þurfum við og viljum koma okkar áherslum að og við erum svo sannarlega ekki að horfa til þess að vera með okkar stjórnarmenn í stjórnum félaga, þar sem Gildi á hlut, heldur erum við að horfa á þetta út frá því að vera ábyrgir fjárfestar, að fara yfir samfélagslega ábyrgð og hvernig við teljum að eigi að koma að regluverkinu."