Á hluthafafundi Vinnslustöðvarinnar á miðvikudaginn var samþykkt að einstaklingum og félögum sem fara með meirihlutann yrði stefnt í nafni Vinnslustöðvarinnar sjálfrar til að greiða skaðabætur vegna tjóns sem þeir hefðu orðið fyrir við sameiningu og kaup á tveimur félögum í Eyjum. Er greint frá þessu í Fréttablaðinu .

Í fréttinni segir að forsvarsmenn Stillu ehf., sem er í eigu bræðranna Guðmundar og Hjálmars Kristinssona, hafi lagt fram tillöguna, en í samtali við Viðskiptablaðið segir Guðmundur að það sé ekki rétt. Tillagan hafi verið lögð fram af Guðmundi Erni Gunnarssyni, stjórnarformanni.

Vinnslustöðin keypti hluti í útgerðinni Ufsabergi árin 2008 og 2011 sem fóru fram gegn vilja bræðranna. Fóru þeir með málið á sínum tíma fyrir dómstóla og ógilti Hæstiréttur samrunann á síðasta ári. Ný samrunaáætlun var hins vegar samþykkt af meirihlutaeigendum og Ufsabergs í sumar. Hluthafafundur fór fram síðasta miðvikudag þar sem samrunaáætlunin var samþykkt.