Spurð um megináherslu verkalýðshreyfingarinnar í kjaraviðræðunum sem fram undan eru, segir Drífa Snædal, framkvæmdastjóri SGS, að aðildarfélög ASÍ séu að vinna kröfugerðir innan sinna raða sem verði svo teknar fyrir á vettvangi heildasamtakanna. Því liggi áherslurnar ekki endanlega fyrir, en svo virðist vera, eins og áður hefur komið fram, að böndin muni beinast að stjórnvöldum. Einnig séu töluverðar væntingar innan hreyfingarinnar um bættan hag lág- og millitekjuhópa, hvort sem það er í gegnum kjarasamninga eða breytingar á skattkerfi.

Að sögn Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, mun VR gera grein fyrir sinni kröfugerð um miðjan september. Hann segir einnig að stjórnvöld muni hafa áhrif á kröfugerð VR gagnvart atvinnulífinu.

„Ég hef verið að funda náið með Eflingu og Verkalýðsfélagi Akraness og vona að það samstarf haldi áfram. Ég á ekki von á öðru þar sem við erum þéttur hópur og höfum mikinn hljómgrunn okkar á milli. Við munum klára kröfugerðina sjálfa hjá VR, hún er að fara í gang og könnun sem við sendum til félagsmanna fór út 20. ágúst síðastliðinn. Þetta er viðamikil könnun og markmið hennar er að varpa ljósi á vilja félagsmanna okkar.

Í kjölfarið munum við hitta okkar bakland, sem er trúnaðarráð og trúnaðarmenn, á stórum vinnufundi þar sem við munum fara yfir niðurstöður könnunarinnar sem og helstu kröfur okkar baklands. Samninganefndin, sem er stjórnin, mun svo taka þetta saman og þannig munum við móta okkar kröfugerð. Síðan reikna ég með því að við munum gera grein fyrir henni um miðjan september. Því ættum við að vera tilbúin með okkar kröfugerð, góðum mánuði fyrir ASÍ þingið.

Okkar viðsemjendur eru SA, en á sama tíma er þessi risastóri fíll, sem eru ákvarðanir kjararáðs. Mér þykir ansi dapurt að stjórnvöld haldi að það að leggja niður kjararáð sé lausnin við þeirri gjá sem hefur myndast á milli vinnumarkaðarins og ákvarðana kjararáðs. Þetta verður ekki leyst nema með aðkomu stjórnvalda. Þó að stjórnvöld séu í sjálfu sér ekki okkar viðsemjendur, munu þau hafa áhrif á kröfugerð okkar gagnvart atvinnulífinu. Kröfugerðir okkar munu á endanum hafa úrslitaáhrif á það hvað stjórnvöld eru tilbúin til þess að gera til að mæta þessu bullandi vantrausti og ábyrgðarleysi sem ákvarðanir kjararáðs hafa gert fyrir vinnumarkaðinn. Það er ábyrgð sem ríkið getur ekki skorast undan með einum eða neinum hætti, heldur verður að fara að viðurkenna og takast á við þetta.

Við höfum sagt það og lýst yfir að við munum leggja áherslur á hækkun persónuafsláttar og breytingar á barnabótakerfinu. Við munum gera kröfu um þjóðarátak í húsnæðismálum. Það eru kröfur sem eru viðurkenndar og samþykktar af okkar baklandi og við munum halda þeim til haga. Svo erum við að skoða aðra hluti sem snúa að vinnuumhverfinu, eins og til dæmis styttingu vinnuviku og fleiri þáttum. Við erum að skoða og greina þessa hluti innan okkar raða. Sömuleiðis verður skoðað hvort við förum fram á krónutölu launahækkanir, eða blandaða leið krónutölu og prósentu, eða krónutöluhækkanir með ákveðnum hámörkum og lágmörkum. Þetta eru hlutir sem við erum að reikna út og skoða. Okkar félagsmenn munu svo taka endanlega afstöðu til þessara hluta fyrir 15. september."

14 milljarða svigrúm ekki nægilegt

Í fjármálaáætlun kemur fram að stjórnvöld hafi skapað 14 milljarða króna svigrúm til að lækka tekjuskatt. Ragnar Þór og Drífa eru bæði efins um að þetta sé nægilegt svigrúm.

„Það fer alveg eftir útfærslunum, verður þetta nýtt til tekjujöfnunar eða ekki? Fljótt á litið þykir mér þetta ekki nóg ef það á að leiðrétta þá skattbyrði sem hvílt hefur á tekjulágum. Það á eftir að koma í ljós hvort það séu hugmyndir uppi hjá stjórnvöldum um að dreifa skattbyrðinni með jafnari hætti, þá er ég ekki að tala um peninginn sem er settur í kerfið heldur tilfærslur innan kerfisins. Hvort það verði til dæmis frekar lagður þungi á þá tekjuhærri, sem gagnast þeim tekjulægri. Þessar tilfærslur eru áherslur núverandi forystu og miðstjórnar ASÍ," segir Drífa.

„Okkur finnst þetta ekki nóg, en vitum þó að það er búið að gefa út þetta svigrúm. Meðan við erum að reikna út okkar kröfugerð þá reiknum við alla vega með þessu, einnig með hagvaxtarspám og spám Seðlabankans og þannig byggjum við upp okkar kröfugerð. Svo kemur í ljós hversu mikið við teljum vanta upp á til þess að mynda hér sátt. Draumurinn hjá okkur er að ná svona um það bil þriggja ára samningi og gera það án átaka. Það er markmið okkar, en miðað við það hvernig atvinnulífið hefur komið fram og talað til okkar og hvernig stjórnvöld tala til okkar, þá get ég ekki séð annað en átök í kortunum," segir Ragnar Þór.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .