Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, segir að nú í haust hafi verið komið á fót eins konar skóla fyrir fyrirtæki sem hyggja á skráningu á markað, sem gengur undir nafninu First North næsta skref, og er settur upp í samstarfi við Íslandsbanka, lögmannsstofuna LOGOS, endurskoðunarstofuna KPMG og Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins.

„Þetta er 8 mánaða dagskrá fyrir fyrirtæki sem er til þess fallin að undirbúa þau fyrir skráningu á First North. Þegar þau eru búin með skólann eiga þau að vera nánast í stakk búin til að skrá sig.“ Í skólanum er allt mögulegt er varðar undirbúning fyrir skráningu kennt.

„Við erum meðal annars að fara yfir skyldur félaganna varðandi upplýsingagjöf. Við erum að fara yfir samskipti og markaðssetningu, áreiðanleikakannanir, stjórnarhætti, verkferla, innviði, reikninga og ýmislegt annað. Þannig að það er farið býsna víða í þessu námskeiði. Það sem flest þessara fyrirtækja komast að, er að svona að grunni til eru skilyrði sem sett eru fyrirtækjum sem hyggjast skrá sig á markað í raun lítt frábrugðin þeim skilyrðum sem mörg fyrirtæki setja sér sjálf til að verða fyrsta flokks fyrirtæki,“ segir Páll.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .