Fasteignaskattar sveitarfélaga af atvinnuhúsnæði hafa hækkað um 23% á íbúðarhúsnæði á síðustu fimm árum og 29% af atvinnuhúsnæði undanfarin fimm ár. Í krónum talið hafa fasteignaskattar á íbúðarhúsnæði hækkað úr 11,6 milljörðum í 14,4 milljarða á verðlagi þessa árs en álögur á atvinnuhúsnæði hafa hækkað um 5,1 milljarð króna og námu samtals 23 milljörðum króna á síðasta ári. Lögum samkvæmt er sveitarfélögum heimilt að leggja að hámarki 0,625% skatt á fasteignamat af íbúðarhúsnæði og 1,65% af fasteignamati atvinnuhúsnæðis. Umtalsverð hækkun fasteignamats hefur haft í för með sér að tekjur sveitarfélaga af þessum skattstofni hafa hækkað verulega undanfarin ár. „Í greinargerð með lögum um tekjustofna sveitarfélaganna stendur að fasteignagjöldin séu endurgjald fyrir veitta þjónustu sveitarfélaganna en ekki eignarskattur,“ segir Ólafur.

„Við höfum skrifað sveitarfélögum og farið fram á kostnaðarútreikninga á álagningu gjaldsins og þeir eru ekki til. Þannig að sveitarfélögin hafa umgengist þetta sem eignarskatt,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.

Á að samsvara kostnaði

„Skattstofninn byggir á mati Þjóðskrár á því hvaða tekjur menn geti haft af eign sinni. Það liggur fyrir að fasteignamat er miklu hærra í miðbænum, Kringlunni eða Smáralind en annars staðar. Það eru engin rök fyrir því að dýrara sé að þjónusta fyrirtæki á þessum svæðum en annars staðar. Strax þar er ástæða til að skoða málið. En skattbyrðin undanfarin ár vegna hækkana á fasteignamati hefur þyngst um tugi prósenta og er úti úr korti við alla verðlagsþróun og oftast nær út úr öllu korti við það sem er að gerast í rekstri fyrirtækjanna. Sveitarfélögin hafa fengið stórauknar tekjur í sinn vasa án þess að hafa þurft að veita fyrirtækjum nokkra meiri þjónustu á móti.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .