Góð líðan ehf. er nýstofnað sprotafyrirtæki sem mun koma til með að bjóða upp á sálfræðiþjónustu á netinu. Stofnendurnir vonast til að geta bætt aðgengi að sálfræðiþjónustu fyrir alla þá sem á henni þurfa að halda en komast ekki að vegna mikillar eftirspurnar.

Framkvæmdastjóri fyrirtækisins, Thelma Sif Sævarsdóttir, segir að Góð líðan muni bjóða upp á hugræna atferlismeðferð í net- þjónustu sinni. Að sögn Thelmu er meðferðin sú sem hefur skilað hvað mestum og varanlegustum árangri, en hún miðar að því að móta hugsunarhátt þeirra sem hljóta meðferðina og ýta undir gagnlega hugsun sem svo bætir líðan.

Gengur þvert á greiningar

„Netsálfræðiþjónustan er nýjungin sem við viljum bjóða upp á,” segir Thelma. „Það er í það minnsta enginn annar að bjóða uppá hugræna atferlismeðferð sem gengur þvert á greiningar hér á landi. Við bjóðum upp á átta vikna meðferð gegnum internetið, sem skipt er upp í lotur. Í hverri lotu er lesefni og myndbönd sem kynnir aðferðir hugrænnar atferlismeðferðar fyrir skjólstæðingnum sem hann getur tileinkað sér til að hugsa á annan hátt og bæta líðan sína.”

Ásamt Thelmu koma að stofnun fyrirtækisins þau Birta Brynjarsdóttir, Óttar Guðbjörn Birgisson og Sævar Már Gústavsson, en allir eru stofnendurnir við það að útskrifast með mastersgráður í klínískri sálfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Öll hafa þau mikinn áhuga á að bæta aðgengi að sálfræðiþjónustu.

Mikill framboðsskortur

Allt að 35-50% þeirra sem þurfa sálfræðiþjónustu fá enga að- stoð við veikindum sínum, segir Thelma, en það sé einna helst vegna þess að aðgengi er alvarlega ábótavant og vegna þess að sálfræðiþjónusta er kostnaðarsöm enda ekki niðurgreidd eins og önnur heilbrigðisþjónusta.

„Við höfum bara séð það bæði í starfi okkar inni á spítalanum og í starfsnámi okkar almennt að það er mikil þörf fyrir frekari þjónustu. Mjög margir fá ekki þjónustu við sínum vanda og miklu meiri eftirspurn fyrir sálfræðiþjónustu en framboð er fyrir,“ segir Thelma.

„Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni eru 35-50% þeirra sem þurfa sálfræðiþjónustu með- ferðarlausir. Það má áætla að fyrst og fremst stafi þetta af aðgengisskorti. Auk þess er sálfræðiþjónusta frekar dýr, þar eð hún er ekki niðurgreidd af ríkinu eins og önnur heilbrigðisþjónusta.“ Hægt er að skrá sig á póstlista fyrirtækisins á gagnleghugsun.is

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð . .