Með kaupum á tæplega hálfs prósenta eignarhlut í Arion banka til viðbótar við tæplega 10% eignarhlut sem breski vogunarsjóðurinn átti fyrir, hefur Attestor Capital nú eignast rúmlega 10,4% hlut í Arion banka. Bréfin voru keypt fyrir rúmlega 800 milljónir króna og nýtti sjóðurinn til þess lítinn hluta kaupréttar sem hann átti í bankanum, daginn áður en kauprétturinn rann út þann 19. september síðastliðinn.

Markmiðið er að með kaupunum eigi vogunarsjóðurinn og bandaríski fjárfestingarbankinn Goldmann Sachs nú stærri hlut en Bankasýsla Ríkisins sem heldur á 13% hlut að því er Fréttablaðið greinir frá. Samanlagt fara nú Attestor Capital og Goldman Sachs, sem samanlagt eiga um 13,01% hlut, með atkvæðarétt í Arion banka eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá.

Jafnframt munu Taconic Capital og Kaupþing fá rétt til að fara með virkan eignarhlut, og þar með atkvæðarétt, um leið og Arion banki verður skráður á hlutabréfamarkað að því er sagt hefur verið frá í Viðskiptablaðinu. Í kjölfar stjórnarslitana tilkynnti Kaupþing þó um að skráning Arion banka á markað verður frestað enn um sinn, en áður hafði verið fyrirhugað að skráningin færi fram á þessu ári.