Á sama tíma og flestir aðrir seðlabankar heimsins hafa frestað stýrivaxtalækkunum um sinn, þá ákvað Seðlabanki Sviss að hækka stýrivexti í gær um 25 punkta, - úr 2,5% í 2,75% - einkum til að draga úr flökti svissneska frankans á gjaldmeyrismarkaði og halda undirliggjandi verðbólguþrýstingi í skefjum, enda þótt slíkt gæti orðið til þess að draga úr hagvexti. Þrátt fyrir að þetta hafi verið áttunda vaxtahækkun bankans í röð frá því í desember árið 2005, er aðeins að finna lægri stýrivexti í Japan - 0,5% - heldur en Sviss á meðal stærstu ríkja alþjóðahagkerfisins.

Ákvörðun svissneska seðlabankans kom sumum greiningaraðilum á óvart, meðal annars í ljósi þess að aðeins er vika liðin frá því að Seðlabanki Evrópu og Englandsbanki héldu stýrivöxtum óbreyttum, en stýrivaxtaákvarðanir Seðlabanka Sviss hafa að mestum hluta verið í samræmi við aðgerðir evrópska seðlabankans á undanförnum árum. Dow Jones-fréttaveitan segir að með þessari ákvörðun hafi svissneski seðlabankinn bæst í hóp landa á borð við Tékkland, Noreg og Svíþjóð, sem öll hafa hækkað stýrivexti á síðustu vikum.

Bloomberg-fréttaveitan greinir frá því að mjög skiptar skoðanir hafi verið á meðal hagfræðinga hvort vextir yrðu hækkaðir eða haldið óbreyttum: Ellefu hagfræðingar spáðu 25 punkta vaxtahækkun og vísuðu til þess að hagvöxtur væri öflugur og verðbólga lítil, á meðan níu hagfræðingar gerðu ráð fyrir óbreyttum vöxtum sökum umrótsins á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Patrick Franke, aðalhagfræðingur þýska bankans Commerzbank, segir að vegna lausafjárþurrðar á fjármagnsmörkuðum hafi hann ekki átt von á því að seðlabankinn myndi ráðast í slíka hækkun.

Financial Times hefur eftir Jennifer McKeown hjá Capital Economics, sem er ráðgjafarfyrirtæki í efnahagsmálum, að stýrivaxtahækkun svissneska seðlabankans endurspegli þá staðreynd að þrátt fyrir "sviptingar á mörkuðum síðustu vikur þá útilokar slíkt ástand ekki aðhaldssamari peningamálastefnu hjá seðlabönkum - sérstaklega þeim sem eru fyrir með lága stýrivexti".

Seðlabanki Sviss breytti einnig verðbólguhorfum sínum fyrir núverandi ár og spáir hann því að verðbólga mælist 0,6%, en fyrri áætlun gerði ráð fyrir 0,8% verðbólgu. Bankinn hélt hins vegar spá sinni um 2,5% hagvöxt á þessu ári óbreyttri frá því í júnímánuði.