Í ágústmánuði var 44 kaupsamningum og afsölum á atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu þinglýst, en heildarfasteignamat seldra eigna í mánuðinum var 2.796 milljónir króna.

Þetta kemur fram á vef þjóðskrárinnar, en þar eru talin þinglýst skjöl. Af þessum 44 voru 21 skjal um verslunar- og skrifstofuhúsnæði.

Svipað margar eignir en andvirðið margfallt

Nálega jafnmörgum, eða 39 skjölum, var þinglýst á sama tíma á landsbyggðinni, en þar var heildarfasteignamat seldra eigna 406 milljónir króna, eða um 14,5% af andvirði eignanna sem seldar voru á höfuðborgarsvæðinu.

Á þessum sama tíma voru 24 kaupsamningar um atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu skráðir í svokallaða kaupskrá, en heildarupphæð þeirra var 1.463 milljónir króna og fasteignamatið var 923 milljónir króna. Af þeim voru 10 um verslunar- og skrifstofuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu.

Utan höfuðborgarsvæðisins voru 21 kaupsamningur skráður í kaupskrá í mánuðinum, og var heildarupphæð þeirra 250 milljónir króna, en fasteignamat þeirra eigna sem samningarnir fjölluðu um var 191 milljón króna.

Ef borin eru saman heildarupphæð á hvorum hluta landsins fyrir sig, þá nemur andvirði þeirra á landsbyggðinni um 17% af andvirði eignanna á höfuðborgarsvæðinu.