Atvinnulausum í Bretlandi fækkaði um 132.000 á tímabilinu apríl til júní. Nú eru 2,08 milljónir Breta atvinnulausir og mælist atvinnuleysið 6,4%, samkvæmt nýjum tölum vinnumálayfirvalda þar í landi, sem fjallað er um á vef BBC.

Atvinnuleysi lækkar um 0,1 prósentustig frá síðasta mánuði og hefur ekki mælst minna síðan seint á árinu 2008.

Samkvæmt nýju tölunum hækkuðu meðallaun, án bónusa, um 0,6% á fyrstu sex mánuðum ársins. Það er minnsta hækkun síðan mælingar hófust árið 2001. Ef bónusar eru teknir með í reikninginn lækkuðu meðallaunin um 0,2%. Það er fyrsta lækkun meðallauna frá árinu 2009.

Athygli vekur að um 40% þeirra sem komu inn á atvinnumarkaðinn í Bretlandi á síðasta árinu eru fæddir erlendis.