Atvinnuleysi í lok síðasta árs nam 2,6%, sem er fjölgun um 0,1 prósentustig frá fjórða ársfjórðungi ársins 2016 að því er Hagstofan greinir frá. Hafði atvinnulausum fjölgað um 200 manns milli ára, en í heildina var atvinnuþátttaka 81,2% en hlutfall starfandi af þeim 79,1%.

Jafnframt fjölgaði starfandi fólki um 2.700 frá fjórða ársfjórðungi ársins 2016 til sama tímabils í fyrra. Á fjórða ársfjórðungi síðasta árs voru að jafnaði 199.600 manns á aldrinum 16 til 74 ára á vinnumarkaði, en þar af voru 194.400 starfandi og 5.200 án vinnu og í atvinnuleit.

Þar af voru fleiri karlar, eða 2.900 og var atvinnuleysið 2,7% hjá þeim en 2,5% hjá konum. Jafnframt var sami munur á atvinnuleysi á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu. Meðalfjöldi heildarvinnustunda á viku voru 38,9 klukkustundir hjá þeim sem voru í vinnu í viðmiðunarvikunni.

Þegar því var skipt eftir starfshlutfalli sést að meðalfjöldinn var 44,3 klukkustundir hjá þeim sem voru í fullu starfi og 23,1 klukkustund hjá þeim sem voru í hlutastarfi.

Í lok síðasta árs höfðu um 600 manns verið atvinnulausir í ár eða lengur, sem jafngildir 10,9% allra atvinnulausra, sem er tvöföldun frá sama tíma árið 2016 þegar þeir voru 300. Hlutfall þeirra þá var 7,0% af atvinnulausum, en hlutfall langtímaatvinnulausra af þeim sem voru á vinnumarkaði fór úr 0,2% í 0,3%.