Atvinnuleysi hefur ekki verið lægra í Bretlandi í 42 ár. Í maímánuði mældist atvinnuleysi 4,5% og hefur það ekki verið lægra frá árinu 1975. Dróst atvinnuleysi saman um 0,2 prósentustig á milli mánaða. Atvinnuleysi meðal fólks á aldrinum 16-24 ára mældist 12,5% og dróst saman um 1% á milli ára. BBC greinir frá.

Atvinnustig í landinu hækkaði um 0,3% og er nú 74,9%. Þrátt fyrir jákvæða stöðu á vinnumarkaði dróst kaupmáttur launa saman. Launahækkanir námu 2% á ársgrundvelli en á sama tíma var verðbólga 2,9% í maí sem er hæsta verðbólgustig í Bretlandi í tæp fjögur ár.