Atvinnuleysi hefur ekki mælst jafn lágt í maímánuði síðan árið 2005 þegar það mældist einnig 4,1%. Þegar atvinnuleysið hefur verið árstíðarleiðrétt, telst það 2,2%, og hefur það lækkað um 0,8 stig á síðustu 12 mánuðum.

Voru að jafnaði 203.600 manns á aldrinum 16-74 ára á vinnumarkaði í maí 2016 samkvæmt nýlegri Vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands. Jafngildir það 86,1% atvinnuþátttöku, en af þeim voru 195.400 starfandi og 8.200 án vinnu en í atvinnuleit. Hlutfall starfandi af mannfjölda var 82,7% og hlutfall atvinnulausra af vinnuafli 4,1%.

Atvinnuþátttaka hefur aukist um 2 prósentustig milli ára en fjöldi starfandi jókst um 12.500 meðan atvinnulausum fækkaði um 5.000 manns.