Atvinnulausum í Noregi hefur fjölgað mun hraðar en gert var ráð fyrir og jókst fjöldi þeirra um 8.000 manns frá marsmánuði til júnímánaðar, samkvæmt nýjum tölum hagstofunnar þar í landi. E24 greinir frá þessu.

Þar kemur fram að atvinnuleysi í landinu nemi nú 4,5% og jókst um 0,2% milli mánaða. Alls voru 124 þúsund atvinnulausir í Noregi í júní og hafa þeir ekki verið fleiri í tíu ár.

Seðlabanki Noregs hafði gert ráð fyrir 4,25% atvinnuleysi að meðaltali á árinu. Aukningin er meðal annars rakin til lækkandi olíuverðs sem hefur slæm áhrif á norskan efnahag. Þessi þróun er öfug við það sem hefur átt sér stað á hinum Norðurlöndunum þar sem atvinnuleysi hefur dregist saman.