Atvinnuleysi á evrusvæðinu lækkaði um 0,2 prósentustig í síðasta mánuði og nam 10,9 prósentum, en það er minnsta atvinnuleysi sem hefur mælst á svæðinu síðan í febrúar 2012.

Bloomberg greinir frá þessu og vísar jafnframt til könnunar sinnar meðal markaðsaðila, en því var spáð að atvinnuleysi myndi haldast óbreytt milli mánaða. Því er lækkun atvinnuleysisins nokkuð óvænt.

Fundur verður haldinn í Seðlabanka Evrópu á fimmtudaginn til að meta þörfina fyrir áframhaldandi stuðningsaðgerðir bankans við efnahagslífið. Bankinn virðist vera að fá ansi blendin skilaboð þessa dagana, því á sama tíma og nokkuð jákvæð tíðindi eru að berast af þróun atvinnuleysis og hagvaxtar á evrusvæðinu - meira að segja í Grikklandi - er óvissa og spenna á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, einkum vegna Kína.