Atvinnuleysi á Spáni hefur nú lækkað niður fyrir 25% í fyrsta sinn í tvö ár. 402 þúsund einstaklingar komu nýir inn á vinnumarkaðinn þar í landi á öðrum ársfjórðungi, að því er fram kemur á vef BBC . Atvinnuleysi mælist nú 24,5% og hefur lækkað um 1,4 prósentustig frá fyrsta ársfjórðungi.

Þrátt fyrir lækkunina er atvinnuleysi á Spáni það næst mesta í Evrópu en um 5,6 milljón Spánverjar eru án vinnu.

Fyrir sjö árum síðan mældist atvinnuleysi á Spáni einungis sjö prósent en hefur aukist verulega á síðustu árum. Mest fór það upp í 27%. Spænski seðlabankinn hefur gefið út að spænska hagkerfið sé að taka verulega við sér og hafi ekki vaxið jafn hratt í sex ár. Bankinn spáir því að þróunin muni halda áfram með 1,3% vexti á þessu ári og 2% á því næsta.