Á fjórða ársfjórðungi ársins 2018 nam atvinnuleysi í landinu að jafnaði 2,4%, en það var litlu minna, eða 2,3% ef einungis er horft til kvenna. Af 4.900 án vinnu og í atvinnuleit á tímabilinu voru 2.100 konur. Atvinnulausum fækkaði á milli ára um 300 manns en hlutfallslega fækkaði þeim um 0,2 prósentustig að því er Hagstofa Íslands greinir frá.

Á tímabilinu voru að jafnaði 203.700 manns á aldrinum 16 til 74 ára á vinnumarkaði, en 198.900 þeirra voru starfandi, svo atvinnuþátttakan var 80,5%, en hlutfall starfandi 78,6%. Starfandi fólki fjölgaði um 4.500 en hlutfallslega fækkaði þeim um hálft prósentustig. Jafnmikið atvinnuleysi var á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni.

Á fjórða ársfjórðungi 2018 voru að jafnaði 182.900 manns við vinnu í hverri viku ársfjórðungsins eða 92,0% starfandi fólks og 73,3% af heildarmannfjölda 16–74 ára. Meðalfjöldi heildarvinnustunda á viku voru 38,3 klukkustund hjá þeim sem voru við vinnu í viðmiðunarvikunni, 43,4 klukkustundir hjá þeim sem voru í fullu starfi og 23,0 klukkustundir hjá þeim sem voru í hlutastarfi.