*

þriðjudagur, 18. desember 2018
Innlent 22. febrúar 2018 09:30

Atvinnuleysið komið í 4%

Atvinnulausum fjölgaði um 2.200 manns frá desembermánuði en þá var atvinnuleysið 2,9%. Var 3,9% í janúar fyrir ári.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Um 8.100 manns eru nú án vinnu og í atvinnuleit á Íslandi samkvæmt tölum vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofu Íslands. Það jafngildir 4,0% atvinnuleysi. Jafnframt hækkaði launavísitalan um 0,4% frá fyrri mánuði í janúar, en síðastliðna tólf mánuði hefur hækkun launavísitölunnar numið 7,3%, segir á vef Hagstofunnar.

Voru að jafnaði 203.500 manns á aldrinum 16 til 74 ára á vinnumarkaði í janúar 2018, en það jafngildir 81,7% atvinnuþátttöku. Þar af voru 195.500 starfandi, eða 78,5% af mannfjölda. Alls voru 45.600 utan vinnumarkaðar, sem er fækkun um 900 frá því í janúar 2017 þegar þeir voru 46.500.

Vinnuaflið hefur aukist um 12.300 manns frá því í sama tíma í fyrra, og hlutfall þess af mannfjölda hefur aukist um 1,3 prósentustig. Jókst fjöldi starfandi um 11.800 og hlutfall þeirra af mannfjölda hækkaði um 1,2% prósentustig. 

Eru atvinnulausir í dag 600 fleiri en í janúar 2017 og 0,1 prósentustigi hærri, en þá var atvinnuleysið 3,9%. Ef hins vegar eru skoðaðar tölur fyrir desember síðastliðinn, þá var atvinnuleysið einungis 2,9% en þá voru 5.900 manns án atvinnu og í atvinnuleit.