Frumkvöðullinn Hjálmar Gíslason – sem hefur komið að stofnun fimm sprotafyrirtækja og endaði á að selja eitt þeirra, DataMarket, til bandaríska stórfyrirtækisins Qlik fyrir 1,6 milljarð – vonar að íslenskt atvinnulíf verði fjölbreyttara í framtíðinni.

Hann segist útskýra íslenskt efnahagslíf fyrir útlendingum þannig að það skiptist í fernt: Orka, fiskur, túrismi, og svo allt annað. Þessir fjórir hlutar hafi verið hér um bil jafn stórir, en ferðaþjónustan sé nú orðin stærst. „Ég vil búa í landi þar sem maður getur ekki talið á fingrum annarrar handar það sem þjóðin gerir.“

Hjálmar stofnaði sitt nýjasta fyrirtæki, GRID , nú í haust. Þrátt fyrir að vera búsettur erlendis á þeim tíma og þekkja vel til nýsköpunarumhverfisins þar, ákvað hann að snúa heim og stofna fyrirtækið hér. „Ég velti þessu mikið fyrir mér þegar ég var búinn að átta mig á því að ég væri að fara að setja eitthvað nýtt af stað. Ég bjó í Boston á þeim tíma, sem er á næstum öllum topp 10 listum yfir bestu staði heimsins til að stofna fyrirtæki. Reykjavík er svo ég viti ekki á neinum slíkum lista. Það sem ég átta mig á er að í Boston þekki ég fullt af fólki; fjárfesta, stjórnendur, og frumkvöðla, en í raun og veru þekki ég ekki mikið af fólki þar sem raunverulega getur verið með hendurnar á lyklaborði og búið eitthvað til. Ég hefði því notið góðs af tengslanetinu þegar kæmi að fjárfestingum og slíku, en ég hafði í raun mjög veikt tengslanet til að safna að mér forritunarhópi og öðrum þeim sem þarf til að smíða vöruna. Hér á Íslandi þekki ég hinsvegar fullt af fólki og er vel tengdur í þessum geira, og taldi mig hafa möguleikann á því að setja saman lítinn og sterkan hóp á tiltölulega stuttum tíma, sem ég vissi að réði við verkið.“

þótt GRID sé sett upp sem íslenskt fyrirtæki í dag segir Hjálmar þó allskyns aðstæður geta skapast þar sem eðlilegt yrði að til yrði erlent móðurfyrirtæki. „Til dæmis ef við værum að fá stóra fjárfestingu inn væri mjög líklegt að fjárfestar hreinlega færu fram á það.“

Hann segir að ýmislegt mætti bæta í tengslum við nýsköpunarumhverfið á Íslandi, ekki síst gjaldmiðlamál, sem hafi verið eitt það helsta sem vafðist fyrir sölunni á DataMarket til Qlik . Samningsferlið hafi að mörgu leyti tafist vegna gjaldeyrishaftanna, sem hann segir hafa verið stærsta áhættuþáttinn í sölu fyrirtækisins. „Einu skiptin sem mér fannst mögulegt að samningurinn væri í einhverri hættu voru vegna gjaldeyrishaftanna. Við þurftum að útskýra fyrir fólki sem var vant að vinna í alþjóðlegu – aðallega bandarísku – umhverfi, að í fyrsta lagi er Ísland lítið og lagaumhverfið öðruvísi og svona, en síðan þegar þú bætir gjaldeyrishöftunum við, þá er það eðlilega eitthvað sem veldur stórum fyrirtækjum áhyggjum,“ segir hann, en sækja þurfti um undanþágu frá höftunum hjá Seðlabankanum til að samningurinn gæti gengið í gegn. „Þetta var bara aukinn kostnaður og aukin áhætta.“

Þótt gjaldeyrishöftin hafi að mestu leyti verið afnumin í dag segir hann gjaldmiðilinn áfram standa nýsköpunarfyrirtækjum fyrir þrifum. „Gengissveiflur eru náttúrulega að þvælast fyrir öllum íslenskum fyrirtækjum að einhverju leyti. Ég held að fyrir fólk í mínum geira og stóran hluta Íslendinga væri hagsmunum okkar best borgið í Evrópusambandinu með evru. Ég held að það muni gerast á einhverjum tímapunkti, þó það sé ekki hljómgrunnur fyrir því þessa dagana. Við erum að sjá eitt stakt flugfélag lenda í vandræðum og gengið sveiflast til um 10%. Það er mjög erfitt að gera áætlanir þegar maður veit að þetta getur skoppað svona til í hvora áttina sem er á nokkrum vikum. Það er að gera íslenska umhverfinu svolítið erfitt fyrir.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .