Á rannsóknarþingi sem haldið var á Hótel Nordica á föstudag í síðustu viku voru drög að jafningjamati lögð fram um stöðu vísinda og nýsköpunar á Íslandi. Að matinu stóðu fimm erlendir sérfræðingar sem lögðu mat á hvar Ísland stæði í alþjóðlegum samanburði, hvað við gerðum vel og hvað mætti betur fara á sviði rannsóknar, þróunar og nýsköpunar hér á landi. Þar kom fram að jarðvegurinn fyrir rannsóknir, þróun og nýsköpun á Íslandi væri mjög frjór en að ýmsir erfiðleikar kæmu í veg fyrir að vísindamenn og frumkvöðlar gætu að fullu notið sín. Þá væri skortur á fjármagni, ónæg þátttaka atvinnulífsins og flókið stofnanakerfi það sem helst stæði í vegi fyrir öflugu rannsóknarumhverfi á Íslandi.

„Það sem kom mér sérstaklega á óvart er hversu dreifðar stofnanir ykkar eru,“ sagði Francien Heijs, formaður jafningjahópsins, í samtali við Viðskiptablaðið eftir að hún og Arnold Verbeek, ráðgjafi sem einnig kom að matinu, höfðu lokið við að kynna drögin á Rannsóknarþinginu. „Það eru mjög margar stofnanir, styrkir eru smáir og rannsóknarteymi eru mjög smá. Þið eruð með sjö háskóla fyrir 320.000 manna þjóð. Hversu margir stunda rannsóknir hér á landi? Af hverju þurfið þið sjö háskóla? Ef litið er til þess hvernig landið liggur þá er skiljanlegt að hafa einhvers konar útibú í kringum landið en þið þurfið að hugleiða vandlega hvernig þið ætlið að byggja háskólakerfið ykkar upp. Okkur fannst tiltölulega sláandi að sjá, ekki bara hvað þið eruð með marga háskóla, heldur margar stofnanir yfirhöfuð. Ábyrgð þessara stofnana er síðan ekki undir einum hatti heldur undir mismunandi ráðuneytum,“ segir Heijs en Verbeek tekur undir gagnrýni hennar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .