Bandaríska hagstofan hefur birt tölur um fjölgun starfa í júlímánuði, en hún var meiri en búist var við eða um 209 þúsund ný störf.

Jókst fjöldi nýráðninga í láglaunastörfum eins og á matsölustöðum og heimaþjónustu, á sama tíma og atvinnuþátttakan sjálf jókst um 0,1% fyrir fólk 25 ára og eldri án menntaskólaprófs. Nam vöxturinn í þjónustustörfum tengdum ferðamennsku um 3,8% sem er meira en meðalvöxturinn.

Í frétt Bloomberg um málið er sagt að enn sé þó hægt að bæta við enda sé markmið Donald Trump Bandaríkjaforseta að koma fólki aftur út á vinnumarkaðinn á sama tíma og smátt og smátt hyggist hann draga úr ríkisútgjöldum.

Hlutabréfavísitölur hækkuðu

Í kjölfar birtingar talnanna hækkaði S&P vísitalan og náði næstum því sínu sögulega hámarki og ávöxtunarkrafan á ríkisskuldabréf hækkaði sömuleiðis, vegna aukningar í bæði störfum og hækkun launa. Styrktist Bandaríkjadalur einnig nokkuð í kjölfar fréttanna.

Í gögnunum er til að mynda tölfræði yfir þá sem vinna minna en vildu, sem eru um 8,6% í júlí, en fjöldi þeirra sem vinna hlutastörf án þess að vilja það fækkaði um 44 þúsund niður um 5,28 milljónir. Meðaltalslaun fyrir hverja vinnustund jókst um 0,3% á mánaðargrunni, sem er aðeins meira en í júnímánuði, en í heildina er launahækkunin um 2,5% milli ára, sem er lítill munur frá því sem verið hefur síðustu 2 árin. Er litlum vexti í framleiðni kennt þar um.

Sagði fólk án atvinnu hluta hinnar þöglu þjóðar

Meðan á kosningabaráttu Trump stóð dró hann kastljósið að þeim milljónum Bandaríkjamanna sem hefðu verið ýtt út úr vinnumarkaðnum, sem hinnar ,,hljóðu þjóðar atvinnulausra Bandaríkjamanna," og lofaði hann lægri sköttum og afnámi reglugerða sem gæti aukið fjölda starfa og laun.

Aðrir benda á að mörg ríki Bandaríkjanna hafa verið að hækka lágmarkslaun sem gætu verið að draga fleira fólk inn í launalægstu störfin.