Vegna slæmrar veðurspár munu Vínbúðirnar á höfuðborgarsvæðinu verða lokaðar kl. 16.00 í dag. Í fréttatilkynningu ÁTVR segir meðal annars:

Í samræmi við ráðleggingar Almannavarna er áhersla lögð á að tryggja öryggi starfsfólks og viðskiptavina þannig að allir verði komnir heim áður en óveður skellur á.

Meðal verslana ÁTVR sem þegar hefur verið ákveðið að loka eru Vínbúðir höfuðborgarsvæðisins - í Austurstræti, Hafnarfirði, Borgartúni, Dalvegi, Eiðistorgi, Kringlunni, Mosfellsbæ, Skeifunni, Stekkjarbakka, Skútuvogi, Smáralind, Spönginni og Vínbúðinni Heiðrúnu. Einnig verður lokað í Vínbúðinni í Vík og í Klaustri.

Á vefsíðu ÁTVR má fylgjast nánar með hvaða búðir eru opnar og hverjar verða lokaðar. Listinn verður uppfærður eftir þörfum.

Fleiri verslanir og stofnanir loka

Þá hafa einnig Smáralind, verslanir Lyfju, Hamborgarafabrikkan, sundlaugar og menningarstofnanir Reykjavíkur lýst því yfir að þær verði lokaðar eftir og í kringum klukkan 16:00 í dag vegna yfirvofandi veðurs.

Auk þess hefur Íþróttabandalag Reykjavíkur sent út tilkynningu um að allar íþróttaæfingar falli niður frá og með klukkan 15:00 í dag.

Míla hefur svo einnig lýst yfir óvissuástandi og áætlar viðbragðsáætlun samkvæmt skilgreindri neyðaráætlun fyrirtækisins.