Advania hefur verið falið að smíða nýjan vef um stóran hluta þjónustu Vinnumálastofnunar en fyrirtækið varð hlutskarpast í útboði Ríkiskaupa um verkið. Nýi vefurinn á meðal annars að spara atvinnulausum sporin, flýta afgreiðslu atvinnuleysisbóta og draga úr tímafrekri pappírsvinnu hjá starfsfólki.

Markmið með nýja vefnum er að efla og flýta þjónustu við viðskiptavini. Þar verður hægt að sækja um atvinnuleysisbætur og fylgjast með afgreiðsluferlinu. Á vefnum geta atvinnulausir afhent og nálgast upplýsingar á rafrænan hátt, óháð búsetu, og þurfa ekki lengur að fara milli stofnana til að útvega gögn fyrir Vinnumálastofnun.

Vefurinn verður líka vinnumiðlun sem miðar að því að auðvelda atvinnulausum að fá störf við hæfi. Þar geta atvinnurekendur auglýst laus störf.

Að mati Margrétar Kr. Gunnarsdóttur sviðsstjóra upplýsingatækni- og rannsóknarsviðs hjá Vinnumálastofnun, dregur nýi vefurinn úr handvirkum verkferlum hjá starfsfólki. Til dæmis sparast heilmikill tími við innslátt á upplýsingum og starfsfólk þarf ekki lengur að eyða tíma í að skanna pappíra. Með aukinni sjálfvirkni og einfaldari verkferlum næst hagræðing og aukið eftirlit með fjármunum hins opinbera.

Nýja kerfið hefur hlotið nafnið Galdur og leysir af hólmi kerfi sem Vinnumálastofnun hefur notað í 25 ár. Þó mikil vinna hafi farið í umbætur á gamla kerfinu er ljóst að því eru verulegar takmarkanir settar. Gert er ráð fyrir að nýi vefurinn bjóði uppá auðveldara notendaviðmót sem geri samkipti við Vinnumálastofnun greiðari.