Einar Oddson segir að fjölskyldan hafi togað mest í hér á landi þegar hann og konan hans ákváðu eftir átta ár af námi og störfum í Bandaríkjunum að flytja aftur heim. Hann hefur undanfarið starfað sem verðbréfamiðlari hjá Íslenskum verðbréfum en hefur nú störf hjá Kóða ehf.

„Kóði gerir margt mjög áhugavert, þeir eiga og reka Kelduna, svo eru Kodiak-vörurnar einna þekktastar, en einnig Vaktarinn. is sem fylgist með fréttum héðan og þaðan. Það má eiginlega segja að Kóði sé minna þekktur heldur en vörurnar,“ segir Einar sem er spenntur fyrir ýmsum nýjungum sem félagið er með í bígerð.

„Og nú erum að smíða kerfi utan um fjármögnun smærri og meðalstórra fyrirtækja sem vilja sækja sér hlutafé á almennum markaði með einföldum og rafrænum hætti.“

Einar og konan hans, Anna Hrefna Ingimundardóttir, sem flutti sig nýlega úr greiningardeild Arion banka yfir á fyrirtækjasvið bankans fóru saman í nám í hagfræði í Bandaríkjunum.

„Svo unnum við saman að uppbyggingu fyrirtækis sem stundar hátíðniviðskipti með algórithmum á rafrænum mörkuðum með skuldabréf, afleiður og fjármálavörur ýmsar, út um allan heim, en við vorum staðsett í Bandaríkjunum,“ segir Einar.

„Við byrjuðum að þróa þennan hugbúnað sem þurfti til að keyra algórithmana í janúar 2008 og svo hófum við viðskipti í júlí en svo kom hrunið í kringum september þetta sama ár. Það var mjög skrýtið að upplifa Guð blessi Ísland ræðu Geir Haarde og allt það í beinni útsendingu frá Íslandi og maður sá þetta fyrir sér í raun miklu verra en þetta var. En svo kom sólin upp daginn eftir og áfram hélt lífið.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .