Sæmundur E. Þorsteinsson og Karl Sölvi Guðmundsson hafa unnið að þróun öryggisbúnaðar í báta sem heitir Maður fyrir borð. Með þessum búnaði verður hægt að sjá nákvæma staðsetningu manns sem fellur fyrir borð þangað til björgun berst.

„Ef sjómaður einn á báti fellur fyrir borð er mikil hætta á því að hann ofkólni og drukkni,“ segir í kynningu á tæknu: „Jafnvel þótt hann sé í björgunarvesti eða flotbúningi. Að slysið sé skynjað og upplýsingar um það sendar til lands eykur verulega líkur á björgun mannsins.“

Sæmundur segir þróun búnaðarins enn í vinnslu og ekki alveg ljóst hvenær henni lýkur. Sem stendur gangi vinnslan hægar en hann hafði vonast til, enda í mörg horn að líta ef allt á að virka rétt.

„Það eru til dæmis talsvert miklar pælingar hvaða tíðnisvið á að velja og hvernig fjarskiptin virka þegar maður er dottinn fyrir borð og það er öldugangur. Ef öldugangur er mikill er stundum sjónlína til bátsins og stundum ekki.“

Til þess að allt gangi upp þarf að vera hægt að ná fjarskiptasambandi milli mannsins í hafinu og bátsins jafnvel þótt fjarlægðin verði orðin frekar mikil.

Maður í sambandi
Búnaðurinn er í tvennu lagi. Annars vegar eining með staðsetningar- og sendibúnaði sem komið er fyrir í björgunarvesti eða flotgalla sjómanns, hins vegar eining um borð í bátnum sem tekur á móti boðum frá sjómanninum og kemur þeim áfram til björgunarmiðstöðvar og nálægra skipa.

Þetta verkefni hefur hlotið styrk frá Samgöngustofu og Rannís og skiptist raunar í tvennt. Maður fyrir borð 1 lætur vita þegar maður fellur fyrir borð og drepur á vél bátsins, en Maður fyrir borð 2 tekur þetta lengra, stýrir bátnum í áttina að manninum í sjónum, drepur þar á vélinni og kastar út björgunarbáti - eða sendir jafnvel dróna eftir honum og flytur hann aftur í bátinn.

„Sumt af þessu er nú kannski meiri framtíðarmúsík, en í prinsippinu er það allt hægt. Tæknilegar útfærslur eru ekki alveg einfaldar því tölvan þarf að fara að taka yfir stýrið á bátnum og stýra vélinni líka og svo margvíslegum búnaði öðrum í bátnum,“ segir Sæmundur.

Þetta er samt kannski ekki svo fjarlægur draumur, jafnvel ekki drónaflugið, því nú þegar eru til drónar sem ráða hæglega við að lyfta 150 kílóum.

Maður fyrir borð er eitt nokkurra verkefna tengd öryggi sjófarenda sem Samgöngustofa hefur styrkt. Fiskifréttir hafa áður sagt frá Strandvara, búnaði sem á að draga mjög úr líkunum á því að skip eða bátar strandi.