Að sögn Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra verður senn tekin afstaða til þess hvort Ríkisútvarpinu beri að hafa auglýsingasölu sína í sjálfstæðu dótturfélagi, líkt og Síminn hefur bent á að kveðið sé á um í lögum um Ríkisútvarpið.

Í samtali við Morgunblaðið á mánudag lét Lilja í ljós þá skoðun að þar væri um að ræða „lagatæknileg atriði", þó lögin, sem eru meira en fimm ára gömul, séu raunar afar skýr og ótvíræð um þetta, eins og kveðið er á um í bæði 3., 4., 5. og 7. grein þeirra í nokkru máli. Ráðherra vill kveða upp úr um það um leið og áætlun um aðgerðir til að styrkja rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla á Íslandi verður kynnt um næstu mánaðamót.

Hún er sem kunnugt er unnin með hliðsjón af skýrslu um rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla, þar sem meðal annars var lagt til að Ríkisútvarpið hyrfi af auglýsingamarkaði, að ríkið endurgreiddi einkareknum fjölmiðlum allt að fjórðung kostnaðar við framleiðslu fréttaefnis og áfengis- og tóbaksauglýsingar yrðu leyfðar í íslenskum fjölmiðlum á ný.