Auglýsingatekjur samfélagsmiðilsins Facebook jukust um 64% á þriðja ársfjórðungi, að hluta til vegna þess að snjallsímaauglýsingum miðilsins fjölgar mjög.

Auglýsingatekjurnar námu tæpum þremur milljörðum dala. Náið er fylgst með snjallsímaauglýsingunum, sem eru nú 66% allra auglýsinga hjá Facebook, eða 1,96 milljarður dala. Hlutdeild snjallsímaauglýsinga hefur aukist stöðugt á árinu, var 59% á fyrsta ársfjórðungi og 62% á öðrum fjórðungi.

Tæplega einn og hálfur milljarður manna notar nú Facebook, fjórtán prósentum fleiri en fyrir ári síðan. Daglegir notendur eru 864 milljónir og þeim hefur fjölgað um 19% milli ára.