Helgi S. Gunnarsson forstjóri fasteignafélagsins Regins segir félagið muni fara þess á leit við Reykjavíkurborg að nýuppsettur reiðhjólastandur á Austurstræti verði fjarlægður.

Standurinn, sem merktur er flugfélaginu Wow air geymir reiðhjól til útleigu, en hann nær frá gatnamótum Pósthússtrætis og Austurstrætis og eilítið fram yfir inngang verslunar Pennans-Eymundssonar.

Truflun á starfsemi Apóteksins

Veitingastaðurinn Apótekið er síðan starfræktur á jarðhæð Austurstrætis 16 sem er í eigu Regins, en Helgi segir reiðhjólastandinn hamla starfsemi vörumóttöku og aðgengi viðskiptavina að því er Morgunblaðið greinir frá.

„Það er mikilvægt fyrir ásýnd borgarinnar að þessi flottu og fallegu hús fái að njóta sín í staðinn fyrir  að auglýsingum á ensku sé klístrað utan í þau,“ segir Helgi en hann segir húsið ásamt götumyndinni vera friðað og mikil vinna hafi verið lögð í að gera allan frágang hennar fallega með hellulagninu. „Yfir nótt setja menn svo þetta risavaxna ferlíki framan við húsið, auglýsingu frá Wow air.“

Settur upp án samráðs

Helgi segir að framkvæmdirnar í götunni hafi allar verið gerðar í samráði við borgina en tilkoma hjólastandsins hafi komið sér að óvörum enda ekki settur upp í samráði við húseigendur við götuna. „Við höfðum ekki heyrt orð frá borginni og ekki Penninn við hliðina heldur,“ segir Helgi sem finnst aðgerðin skrýtin.

„Það hefði verið auðveldara að setja þetta bara á Lækjartorg, við Arnarhól, við höfnina eða einhvern slíkan stað, þar er nóg pláss.“

Trúir að borgin bregðist skjótt við

Helgi segir borgina yfirleitt hafa átt gott samstarf við húseigendur og aðra en þetta mál þykir honum vera sambærilegt við þegar stór auglýsing í formi innkaupapoka var fjarlægð á Lækjartorgi eftir kvartanir í sumar, en þar var auglýst opnun verslunar H&M í Smáralind.

„Borgaryfirvöld voru rosalega snögg að fjarlæga skilti H&M á Lækjartorgi. Það sama hlýtur að gilda um þetta og ég á von á því að borgin lagi þetta.“