Með breytingum á sænska lífeyriskerfinu er stefnt að því að auka ávöxtun af fjárfestingum með því að taka aukna áhættu. Munu nýju reglurnar lækka skilyrði um fjárfestingarhlutfall í öruggum verðbréfum úr 30% niður í 20%, að því er sænska fjármálaráðuneytið tilkynnti um í dag. Sænska lífeyriskerfið er rúmlega 16 þúsund milljarðar íslenskra króna að stærð. Bloomberg greinir frá.

Jafnframt afnema nýju reglurnar 5% hámark á fjárfestingar í óskráðum hlutabréfum, en setja í staðinn 40% hámark á fjárfestingar í fjárfestingum sem ekki eru auðseljanlegar. „Mun þetta auka möguleikann á góðum ábata, og tryggum lífeyri, sérstaklega ef horft er til núverandi lágvaxtaumhverfis,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.

Aðrar breytingar á reglunum afnema skilyrði um að 10% eignanna séu að lágmarki í stýringu utan sjóðanna. Breyttar reglur eru byggðar á sátt sem myndaðist milli stjórnar og stjórnarandstöðu á þingi.