Miklar breytingar hafa orðið á verð­bréfamarkaði á árinu sem er að líða, sér í lagi vegna þess hversu mikill vöxtur hefur orðið á hlutabréfamarkaði. Elín Jónsdóttir var í viðtali hjá Viðskiptablaðinu nýlega og var hún spurð að því hvernig hún teldi markaði munu þróast á næsta ári.

Hún segist hafa litla trú á spámennsku en ljóst er að hennar mati að miklar breytingar munu fylgja fyrirhugaðri afléttingu fjármagnshafta. „Það eru yfirgnæfandi líkur á því að fólk muni fá að fjárfesta erlendis og það er auðvitað töluverð breyting fólgin í því. Fólk sem er að stýra eigin fjármunum eða er með þá í stýringu hjá öðrum verður að fara að velta því fyrir sér hvort það ætli með hluta af sínum eignum erlendis. Þá er spurningin hvert maður á að fara og í hvað. Þetta eru svolítið flóknar spurningar. Við höfum verið að undirbúa okkur og viðskiptavini okkar með því að auka fókusinn á erlenda markaði. Við höfum verið með nokkra fræðslufundi um þetta á þessu ári. Núna í haust fengum við yfirhagfræðing Vanguard í Evr­ópu til að fjalla um erlendar fjárfestingar. Svo er starfsfólkið okkar duglegt við að ræða um það sem er að gerast á erlendum mörkuðum. Það er ekki auðvelt að finna góða ávöxtun erlendis. Flestir vilja sjá einhverja áhættudreifingu og vilja ekki hafa allt innan Íslands. Þetta sé ég fyrir mér að verði breyting á næsta ári.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .