Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins tók nýlega þátt í hlutafjáraukningu í Mentis Cura AS, sem er hugbúnaðarfélag stofnað á Íslandi en er nú með aðalstöðvar í Noregi. Þróunardeild félagsins er á Íslandi. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

Það er mat Nýsköpunarsjóðs og annarra eigenda að framtíð félagsins sé björt. Nýsköpunarsjóður hefur verið hluthafi í félaginu frá árinu 2009 og er nú orðinn annar stærsti hluthafinn með um 11% hlut. Greint var frá því nýlega að Mentis Cura hafi gert samning við japanska fyrirtækið Nihon MediPhysics í Japan sem og samninga í nokkrum Evrópulöndum. Við það urðu mikilvæg þáttaskil hjá félaginu og grundvöllur lagður að frekari vexti.

Mentis Cura framleiðir hugbúnað sem nýtir gervigreind og EEG-heilarit til greiningar á heila- og miðtaugakerfissjúkdómum, svo sem Alzheimer og Huntington-sjúkdóms. Þá tekur Mentis Cura einnig að sér greiningar á ADHD sjúkdómnum með sérstökum hugbúnaði. Mentis Cura hefur frá árinu 2013 starfrækt greiningarstöð við Lífstein heilsumiðstöð í Álftamýri. Þar hafa verið framkvæmdar yfir 3.000 greiningar á mögulegri heilabilun auk þess sem einstaklingum er fylgt eftir yfir lengra tímabil.

Stefnt er að því að bjóða þjónustu Mentis Cura í auknum mæli hér á landi. Þannig er hægt að stytta allverulega þann tíma sem einstaklingar bíða eftir greiningu vegna mögulegrar heilabilunar. Unnið er að sambærilegri þróun í Noregi þar sem markmið norskra heilbrigðisyfirvalda er að draga úr kostnaði en stytta um leið biðlista. Í fyrirspurnartíma í norska Stórþinginu nýlega spurði Tuva Moflag, þingmaður norska verkamannaflokksins, Bent Høie, heilbrigðisráðherra Noregs, um aðgerðir norskra stjórnvalda til að stytta biðlista eftir greiningu á heilabilun. Hún nefndi Mentis Cura í því samhengi og lagði áherslu á að notast væri við þjónustu frumkvöðla á borð við Mentis Cura. Ráðherrann svaraði því til að unnið væri að málinu og tók undir að nota ætti þjónustu fyrirtækja á borð við Mentis Cura.

Mentis Cura var stofnað á Íslandi árið 2004 af Kristni Johnsen, vísindamanni og frumkvöðli. Rannsóknar- og þróunarstarf félagsins fer fram á Íslandi, en höfuðstöðvar þess voru fluttar til Ósló árið 2016. Starfsmenn fyrirtækisins eru á Íslandi, í Noregi og Japan. Fram undan er frekari uppbygging starfseminnar í fjölda Evrópuríkja.