Á fundi bankaráðs Seðlabanka Íslands í síðustu viku var ákveðið að halda sérstakan fund næstkomandi föstudag þar sem tekið verður fyrir bréf Samherja til bankaráðsins. Herma heimildir Viðskiptablaðsins að óalgengt sé að fundir í bankaráði séu haldnir utan reglulegra funda ráðsins, sem fara fram aðra hverja viku.

Stjórn Samherja hefur óskað eftir því að bankaráð hlutist til um að „fram fari athugun á stjórnsýslu bankans, bankastjórnar og annarra starfsmanna, að því er snertir gjaldeyriseftirlit, einkum og sér í lagi í tengslum við húsleit, rannsókn, samskipti, kærur og fjölmiðlaumfjöllun af hálfu Seðlabanka Íslands um málefni Samherja.“

Fundurinn verður haldinn klukkan 15:30, en ekki er ljóst hvort erindi Samherja verður afgreitt að fullu, eða eingöngu rætt á fundinum.