Flugfélög vestanhafs hafa tekið að hækka gjöld fyrir farangur, miðabreytingar, og aðra þjónustu, til að mæta auknum eldsneytiskostnaði án þess að hækka bein fargjöld. Wall Street Journal segir frá.

JetBlue Airways hækkaði á mánuadg verð innritaðrar tösku um 5 Bandaríkjadali, í 30 fyrir fyrstu tösku, og 40 dollara fyrir aðra, sé ódýrasta tegund flugmiða keypt. Hækkunin gildir fyrir þau flug sem keypt eru eftir að breytingin tók gildi, og nær til allra flugleiða.

Flugfélagið hækkaði einnig breytingagjald úr 150 dollurum fyrir flug sem kostuðu 150 dollara eða meira, í 200 fyrir flug á 200 eða meira.

Þá hækkuðu kanadísku flugfélögin Air Canada og WestJet Airlines verð á innrituðum farangri í 30 kanadíska dollara fyrir fyrstu tösku, og United Continental Holdings tilkynnti að til stæði að þau sæti á almennu farrými sem eru framarlega í vélinni yrðu dýrari en önnur.

Verð á flugvélaeldsneyti hefur hækkað um næstum 40% síðasta árið, og íslensku flugfélögin hafa ekki farið varhluta af þeim aukna kostnaði. Icelandair hefur gefið út tvær neikvæðar afkomuviðvaranir á síðustu mánuðum, og nefnt sem eina helstu ástæðuna að fargjöld hafi ekki hækkað eins og við hafi verið búist, þrátt fyrir aukinn eldsneytiskostnað.