Hagnaður N1 var 1.860 milljónir króna á árinu liðna. Það er aukning um 233 milljónir króna milli ára, eða 14% aukning. EBITDA félagsins var 3 milljarðar króna, en það er aukning frá árinu á undan um 344 milljónir króna, eða ríflega 12%.

Ragnar Benediktsson hjá IFS segir að eftir því sem líða tók á árið hafi menn séð í hvað stefndi og því hafi uppgjörið verið nokkuð í takt við væntingar.

„Það sem er spennandi við N1 er að félagið hefur verið að betrumbæta Nesti-stöðvar sínar. Þegar viðskiptavinir koma þar inn á fílingurinn að vera á þá vegu að þú sért að labba inn á kaffihús. Spurning hvort þessi strategía komi í veg fyrir að evrópskir túristar taki með sér smurt nesti þar inn.“

Jóhanna Katrín Pálsdóttir hjá Íslandsbanka segir framlegð félagsins hafa áfram verið sterka og að félagið sé að njóta vel af bílaleigu ferðamanna sem nýti sér ekki ýmis afsláttartæki, s.s. eldsneytislykla, til að kaupa eldsneyti á hagstæðara verði.

„Það sem mest kemur á óvart hvað varðar árið í heild sinni er í hversu miklum magnvexti félagið er að ná á eldsneyti en selt magn, án þotueldsneytis, jókst samkvæmt félaginu um 11,8% milli ára. Þarna skipta auðvitað ferðamenn máli en félagið hlýtur jafnframt að vera að ná góðum árangri í sölu á flotaolíu. Erlendir ferðamenn munu örugglega hjálpa til við magnvöxt í sölu þetta ár líkt og á síðasta ári. Þá er spurning hvort hlutirnir fari ekki að skýrast varðandi mögulega opnun eldsneytisstöðvar Costco á árinu sem og hvort Krónan fer í eldsneytissölu og þá hvaða leið verður farin, þ.e. eigin innflutningur eða samstarf við eitthvert af innlendu olíufélögunum.“

Hún segir segir að nokkuð hafi verið unnið í því að auka rekstraraðhald hjá félaginu frá því að Eggert Kristófersson tók við sem forstjóri, sem sé jákvætt. „Minni yfirbygging gerir félaginu auðveldara að takast á við þær ytri aðstæður sem félagið býr við svo sem þær eftirspurnarsveiflur sem geta verið á flotaolíu og sviptingum á olíuverði. “