Ný verðsjá Þjóðskrár Íslands var tekin í notkun fyrir rúmlega viku síðan. Þjóðskrá hefur í meira en áratug birt verðsjá yfir kaupverð fasteigna um allt land en nú hefur leigumarkaðurinn bæst við.

„Við höfum verið í fararbroddi með að birta upplýsingar um húsnæðismarkaðinn," segir Margrét Hauksdóttir, forstjóri Þjóðskrá Íslands. „Nú erum við komin með gagnasafn yfir þinglýsta leigusamninga og því ákváðum við að bæta leigumarkaðnum við verðsjána. Þar með hefur gegnsæi þess markaðar aukist. Hægt er að skoða mjög víðtækar upplýsingar um leigumarkaðinn. Þetta er eitthvað sem mun nýtast leigutökum og leigusölum en einnig þeim aðilum sem vinna við að greina húsnæðismarkaðinn.

Verðsjáin nýtist einnig kaupendum fasteigna og seljendum því þar er hægt að fá mjög góðar upplýsingar um fasteignaverð og þróun þess eftir landshlutum og sveitarfélögum. Hægt er að kafa enn dýpra því við birtum einnig upplýsingar eftir svæðum og hverfum í stóru sveitarfélögunum. Allar þessar upplýsingar eru settar fram með mjög aðgengilegum hætti í nýju verðsjánni. Hægt er að skoða upplýsingarnar myndrænt á korti og í gröfum en einnig í töflum."

Ingi Finnsson, deildarstjóri mats- og hagdeildar Þjóðskrár, leiddi vinnuna við gerð nýrrar verðsjár. Hann segir að töluverð vinna liggi að baki.

„Þetta hefur verið um það bil eitt ár í smíðum," segir Ingi. "Við erum mjög sátt við útkomuna, bæði viðmótið og þá ekki síst hversu hratt upplýsingar birtast."

Hér er nýja verðsjáin.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .