Tap Farice nam 11 milljónum evra árið 2016 - samanborið við 6 milljón evra tap árið áður. EBITDA félagsins var 7,2 milljónir evra á árinu 2016.

Afskriftir félagsins námu 7,2 milljónum evra árið 2016 og fjármagnskostnaður nam 11 milljónum evra. Eiginfjárhlutfall Farice í lok árs 2016 var 34%. Eignir Farice í árslok 2016 námu tæpum 83 milljónum evra, samanborið við tæplega 89 milljónir evra í árslok 2015. Heildarskuldir félagsins í lok árs 2016 námu 54 milljónum evra.

„Þar sem félagið gerir upp í EUR hefur styrking íslensku krónunnar enn eitt árið neikvæð áhrif á afkomu félagsins og aldrei meiri en á árinu 2016.  Langstærsta skuld félagsins er skuldabréfaflokkur í ISK og styrking krónunnar hefur því verulega neikvæð áhrif á reiknaðan fjármagnskostnað auk þess sem allur innlendur kostnaður hækkar. Reiknað gengistap á höfuðstól skuldabréfaflokksins var EUR 7 milljónir árið 2016  samanborið við EUR 2 milljóna gengishagnað í janúar 2017. Ekki er möguleiki á uppgreiðslu skuldabréfaflokksins fyrr en í apríl 2019,“ er tekið fram í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar.

Farice starfrækir FARICE-1 sæstrenginn sem tengir saman Ísland, Færeyjar og Skotland. Stærstu hluthafar í Farice eru; Íslenska ríkið, Arion banki og Landsvirkjun.