Um 2.900 umsóknir bárust um nám við Háskólann í Reykjavík í vor og eru þær um 10% fleiri en í fyrra. 1.610 umsóknir bárust um grunnnám, 939 um meistara- og doktorsnám og 326 umsóknir bárust um undirbúningsnám fyrir háskóla í frumgreinadeild. Flestir sækja um grunnnám í tölvunarfræði eða 326 manns. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá HR.

Næst flestir sækja um grunnnám í viðskiptafræði, eða 316 og um 280 manns sóttu um að hefja grunnnám í hinum ýmsu greinum verkfræði. Gert er ráð fyrir að um 1.400 nemendur hefji nám við HR í haust. Mest fjölgun á milli ára er í umsóknum um grunnnám í heilbrigðisverkfræði þar sem 87 umsóknir bárust sem er 74% fjölgun frá árinu 2016. Umsóknum um grunnnám í íþróttafræði fjölgaði um 40% og um meistaranám í Iceland School of Energy um 29%.