Íslandsbanki hefur gefið út skýrslu um íslenska ferðaþjónustu og er henni ætlað að gefa aðilum innsýn í þróun greinarinnar og stöðu hennar hverju sinni.

Í skýrslunni er fjallað um áskoranir ferðaþjónustunnar þessa dagana og rekstrarumhverfi fyrirtækja í greininni, en meðal helstu niðurstaðna skýrslunnar er að árstíðarsveifla í komu þeirra aukist á ný, þeir komi í styttri tíma í einu og minni gjaldeyristekjur þýði hverfandi viðskiptaafgang á árinu.

Verðmætaaukning ferðaþjónustunnar hefur verið drifin áfram af fjölgun ferðmanna en nú þegar útlit er fyrir fækkun þeirra blasir við áskorun við að auka verðmæti á hvern ferðamann til að viðhalda verðmætaaukningu greinarinnar, segir meðal annars í skýrslunni.

Meðal þess helsta í skýrslunni er:

  • Fækkun ferðamanna mun leiða til aukinnar árstíðasveiflu.
  • Breytingar á komum ferðamanna hingað til lands eftir þjóðerni hafa leitt til skemmri dvalartíma en áður.
  • Gert er ráð fyrir samdrætti í gjaldeyristekjum og að viðskiptaafgangur verði lítill sem enginn á árinu.
  • Ísland var dýrasti áfangastaður Evrópu árið 2017 og greiddi ferðamaðurinn þó nær tvöfalt hærra verð (84%) hér en að meðaltali innan ESB.
  • Asískir og breskir ferðamenn sækja í dýrari gistingu á meðan aðrir nýta sér í ríkari mæli ódýrari gistingu.
  • Áætlað er að hótelherbergjum á höfuðborgarsvæðinu fjölgi um 8% á árinu þrátt fyrir fyrirhugaða fækkun ferðamanna. Reiknum við því með áframhaldandi lækkun á nýtingu hótela á svæðinu.
  • Hægt hefur á tekjuvexti ferðaþjónustufyrirtækja og hefur þeim ekki tekist að mæta þróuninni með kostnaðarhagræðingu. Niðurstaðan er versnandi rekstrarniðurstöður á nánast alla mælikvarða.
  • Tæplega helmingur fyrirtækja greinarinnar skilar tapi og er hlutfall fyrirtækja í taprekstri hæst á Vesturlandi og á Vestfjörðum