*

mánudagur, 18. febrúar 2019
Innlent 14. september 2018 15:07

Aukin óvissa um efnahagshorfur

Hagvísir sem spáir fyrir um stöðu hagkerfisins eftir hálft ár lækkar áfram sem bendir til minnkandi landsframleiðslu.

Ritstjórn
Yngvi Harðarson er forstjóri Anaylitica sem gefur út hagvísinn.
Haraldur Guðjónsson

Leiðandi hagvísir Analytica, sem gefur vísbendingu um efnahagsumsvif eftir hálft ár, lækkar áttunda mánuðinn í röð í ágústmánuði. Jafnframt er gildið fyrir júlímánuð endurskoðað niður á við en þessi þróun er sögð í tilkynningu Analytica bera vott um þá óvissu sem ríkir með efnahagshorfur nú á haustmánuðum.

Allir sex undirliðir vísitölunnar lækka, en þeir eru valdir út frá þáttum sem koma til í upphafi framleiðsluferilsins og þannig ætlaðir til að gefa vísbendingu um þróunina til framtíðar.

Mesta framlagið til lækkunar er debetkortaveltan, komur ferðamanna á Keflavíkurflugvöll og væntingavísitala Gallup. Samt sem áður segir í tilynningu Analytica að langtímauppleitni mikilvægra undirþátta sé enn sterk. Jafnframt eru það helst áhættuþættir í ytra umhverfi sem helst gætu ógnað hagvexti, þá einkum þeir sem eru tengdir stöðunni í alþjóðastjórnmálum.

Ákveðinn vendipunktur varð á þróun hagvísisins í júlí í fyrra sem fyrirtækið segir gefa til kynna mögulegan vendipunkt í vergri landsframleiðslu snemma á þessu ári.

Einnig er ákveðinn vendipunktur í janúar og febrúar á þessu ári sem gefur til kynna vendipunkt til lækkunar framleiðslu nú í haust. Nánar má lesa um málið á vef Analytica, en Yngvi Harðarson er framkvæmdastjóri félagsins.