Síðastliðið ár hefur verið unnið markvisst að því að auka umsvif Marorku í Asíu og þann 2. desember 2016 var undirritaður flotasamningur milli COSCO Shipping Lines og Marorku í Shanghaí. „Samningurinn er merkur áfangi fyrir Marorku og COSCO en samkvæmt samningum mun skipafélagið taka í notkun orkustjórnunarkerfi frá Marorku fyrir flutningaskipaflota sinn. Ákvörðun um þetta var tekin í kjölfar þess góða árangurs sem tilraunaverkefni höfðu skilað COSCO,“ er sagt í fréttatilkynningu frá Marorku.

Marorka og SMDERI opna þjálfunarmiðstöð í orkustjórnun í Shanghaí

Jafnframt undirrituðu Jürgen Kudritzki, forstjóri Marorku á Íslandi og Dong Jianfu, forstjóri Shanghai Marine Diesel Engine Research Institute samstarfssamning í Shanghaí. „Samningurinn lýtur að því að fyrirtækin muni beita sér fyrir aukinni notkun orkustjórnunarkerfa á kínverska skipamarkaðnum, jafnt til að auka skilvirkni í rekstri skipa og ekki síður til að draga úr skaðlegum útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Hvort tveggja eru mikilvæg skref í átt að því markmiði að bæta samkeppnishæfi kínverskra skipasmíða- og skipafyrirtækja,“ segir í tilkynningunni.

„Til að innleiða slíkar breytingar í skiparekstri þarf að þjálfa áhafnir í notkun nýrra kerfa. Það að geta þjálfað áhafnir á meginlandi Kína hefur í för með sér mikinn umhverfislegan ávinning og sparar kínverskum skipaiðnaði einnig háar fjárhæðir. Þjálfunarmiðstöð í orkustjórnun var því sett á stofn í samstarfi við SMDERI og opnuð með viðhöfn þann 2. desember 2016 í höfuðstöðvum SMDERI í Shanghaí,“ er einnig tekið fram.

Viðstaddir athöfnina voru m.a. Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands og Baldur Ragnarsson, sendiherra Íslands í Kína, ásamt sendinefndum frá kínverskum skipafélögum.

„Með auknum umsvifum Marorku í Asíu hefur náðst mikill árangur og hyggst félagið halda áfram að byggja upp viðskiptasambönd og starfsemi þar og víðar,“ segir að lokum í tilkynningunni.