Umsvif fjárfestingafélagsins Kimi S.ár.l. í Lúxemborg hafa aukist ár frá ári og hefur félagið meðal annars fjárfest í breskum matvælaiðnaði. Félagið er í eigu fjárfestisins Ólafs Ólafssonar, aðaleiganda Samskipa. Fjallað er um málið í Morgunblaðinu .

Félagið Kimi var stofnað í Lúxemborg árið 2009. Eignir félagsins voru óverulegar fyrstu þrjú árin. Næstu ár jukust þær verulega og í lok árs 2014 voru þær tæplega 30 milljónir evra, jafnvirði um 3,6 milljarða króna á núverandi gengi. Það var um 17% aukning milli ára.

Ársreikningur félagsins fyrir árið 2014 er nú aðgengilegur í fyrirtækjaskrá Lúxemborgar. Þar má sjá að um áramótin 2014/15 átti Kimi yfir 20% hlut í sex félögum í fjórum löndum. Þá átti Kimi hlut í breska félaginu Scratch Meals Limited, sem selur matarbakka með fersku hráefni til eldunar. Samkvæmt nýjustu upplýsingum í bresku fyrirtækjaskránni er Kimi enn hluthafi í félaginu.

Samkvæmt ársreikningi Kimi 2014 bættist við yfir 20% eignarhlutur í þremur nýjum félögum frá fyrra uppgjörsári. Þau heita Fort Holding B.V. (Hollandi), Les Bougainvilliers (Frakkland) og Neptune Limited (Síerra Leóne).