Sölutölur byggingavöruverslana í mars sýna að umsvif eru að aukast í byggingaframkvæmdum, en veltan jókst um 13,3% í mánuðinum.

Verð á byggingaefni hélst á sama tíma óbreytt frá því í mars í fyrra að því er fram kemur í umfjöllun Rannsóknarseturs verslunarinnar.

Kemur þar fram að þetta eigi við bæði um almennar byggingarvörur sem og í sérhæfðari verslunum sem selji til að mynda gólfefni.

Fimmtungssöluaukning húsgagna

Einnig er umtalsverð veltuaukning hjá húsgagnaverslunum og verslunum sem selji stór heimilistæki. Velta húsgagnaverslana jókst um 21,2% frá því í mars í fyrra meðan verð húsgagna lækkaði um 8,9% á milli ára.

Velta stórra raftækja jókst jafnframt um 9,5% meðan verð þeirra lækkaði um 5,9% frá því fyrir 12 mánuðum síðan.

Sala á fatnaði og símum dregst saman

Einnig er aukning í dagvöruverslun, en þegar búið er að leiðrétta fyrir áhrifum páskaverslunar sem var í mars fyrir ári sést að veltuaukningin þar nam 5,1%. Verð í dagvöruverslunum hefur einnig lækkað, eða um 2,2% milli ára.

Velta fataverslunar hefur öfugt við fyrrnefnd dæmi lækkað, og var hún 6,4% minni í marsmánuði en í sama mánuði í fyrra. Virðist mesti samdrátturinn vera í sölu á ódýrum fatnaði.

Einnig var samdráttur í sölu snjallsíma sem setrið segir óvenjulegt, en hún dróst saman um 16,9% á milli ára. Telja þeir skýringuna að fyrir ári var nýkominn á markað ný útgáfa af vinsælum snjallsímum á þessum tíma.