Verðhjöðnun er viðvarandi vandamál í Japan þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi reynt að keyra í gang verðbólgu í landinu.

Lækkuðu verð enn meira í apríl sem ýtir á seðlabanka Japans að grípa til frekari aðgerða í peningamálum. Forsætisráðherra landsins, Shinzo Abe líkti ástandi efnahagsmála við krepputímann kringum árið 2008 sem virðist benda til þess að hann muni fresta áætluðum hækkunum á neyslusköttum úr 8 í 10 prósent.

Minnkandi trú á verðbólgumarkmiðum

Vísitala neysluverðs féll um 0,3% milli ára í apríl, eftir að hafa lækkað um 0,1% í mars, sem er langt frá 2% verðbólgumarkmiðum seðlabankans. Aprílmánuður er mikilvægur mælikvarði á verðþróun í Japan því mörg fyrirtæki landsins hækka verð í byrjun nýs efnahagsárs.

Hægðist á mælikvarða seðlabankans á undirliggjandi verðbólgu, sem ekki inniheldur orku og ferskan mat, og fór niður í 0,9% eftir að hafa verið 1,1% í mars. Lækkunin kemur til af hægum launahækkunum í landinu og minnkandi trú markaðarins á verðbólgumarkmiðum seðlabankans.