*

þriðjudagur, 13. nóvember 2018
Innlent 31. maí 2017 08:06

Aukinn áhugi einkafjárfesta á Leifsstöð

Forstjóri Isavia segir að í kjölfar umræðu síðustu vikna um mögulega einkavæðingu Leifsstöðvar hafi aukinn áhugi erlendra fjárfesta kviknað.

Ritstjórn
Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia.
Haraldur Guðjónsson

Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, segir að í kjölfar umræðu síðustu vikna varðandi mögulega einkavæðingu Leifsstöðvar hafi kviknað aukinn áhugi erlendra einkafjárfesta á framvindu málsins. Hann segir það þó ákvörðun stjórnvalda hvort og hvernig völlurinn yrði seldur segir Björn Óli í viðtali í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins.

„Ef farið verður út með flugvöllinn í einhvers konar einkavæðingu, sama hvernig hún verður, þá væri eðlilegt að það væri gert í opnu ferli á Evrópska efnahagssvæðinu. Þess vegna verða menn að átta sig á því að ferlið yrði opið og skýrt því mjög margir myndu fylgjast með þessu um alla Evrópu. Menn fylgjast með þessu nú þegar og við heyrum af áhuga flugvallafjárfesta á að koma og tala við okkur. Þessi umræða hefur leitt til þess að við erum farin að heyra meira en áður frá erlendum fjárfestum um hvort þeir megi koma í heimsókn og fá kynningu á fyrirtækinu,“ segir hann. 

Á Alþingi hefur skapast sú umræða að það sé tímabært að opna umræðu um að ríkið leiti leiða til að umbreyta því fjármagni sem bundið er í mannvirkjum í flugstöðinni í Keflavík. Björn hefur þó sagt að það sé ekki skynsamlegt að hluti rekstursins yrði einkavæddur.