Melabúðin hagnaðist um 28,4 milljónir króna á síðasta rekstrarári, samanborið við 20,8 milljóna króna hagnað árið áður. Rekstrartekjur félagsins námu rétt rúmlega einum milljarði króna og stóðu nánast í stað frá fyrra ári. Rekstrargjöld námu sömuleiðis rétt rúmlega einum milljarði króna og nam hagnaður án fjármagnsliða 30,9 milljónum króna. Eignir verslunarinnar námu 318 milljónum króna um síðustu áramót og eigið fé félagsins nam um 218 milljónum króna.

Laun og launatengd gjöld til starfsmanna námu 168 milljónum króna en 12 manns störfuðu hjá félaginu í fullu starfi og 36 í hlutastarfi í lok síðasta árs. Arðgreiðslur til hluthafa á árinu 2017 voru 25 milljónir króna en Katrín Stella Briem og synir hennar þrír, Pétur Alan, Friðrik Ármann og Snorri Örn Guðmundssynir, eru eigendur verslunarinnar.